Færsluflokkur: Matur og drykkur

Enn ein athugasemd vegna reykingabannsins.

Ég er veitingamaður sem reyki ekki og verð að viðurkenna að mér fannst reykinga bannið alls ekki slæmt, af og frá.  Að hafa ferskt loft fyrir mig og mitt starfsfólk er kærkomið. Svo finnst mér að þegar það eru sett lög þá á að fylgja þeim eftir. Mér fannst það svolítið pínlegt þegar menn voru að brjóta lögin viljandi með því að leyfa reykingar á barnum. Það er að segja þangað til ég frétti að alþingis menn væru sjálfir með reykherbergi.  Mér eins og mörgum fannst þetta til háborinnar skammar. Af hverju þarf "venjulegur maður" að fara út í kuldann á meðan alþingis menn og þeirra starfsfólk fá reyk herbergi? Hvað gerist svo? Vegna þrýstings frá almúganum var ákveðið að loka reykherberginu í Júní!  Ekkert að því og loksins segi ég.  En viti menn ég var að lesa á þriðjudaginn að 8 þingmenn ætla að leggja fram tillögu um að rímka lögin og leyfa reykingar í sér herbergjum! Ég spyr hvar voru þessir alþingismenn þegar lögin voru sett? Af hverju hef ég á tilfinningunni að þeir reyki allir og fyrst núna þegar þeir sjá fram á að þurfa að fara út í kuldann í skíta veðri eru þeir tilbúnir að berjast fyrir reykherbergjum?  Hvort það verða leyfð reykherbergi í framtíðinni eða ekki skiptir mig í sjálfu sér ekki máli, ég vil bara að alþingismenn ákveði sig og hætti að ráðskast með starfsemi marga íslendinga.  Ef þið ætlið að leyfa reykingar leyfið þær þá, ef ekki, reynið þá að muna að þið voruð kosnir til að hugsa um hagsmuni almennings en ekki ykkar sjálfra.   

Er neytendastofa að klúðra málinu?

Ég er einn af þeim sem finnst það nauðsynlegt að fylgjast með samkeppni, en ég verð að viðurkenna að mér finnst fréttir þeirra í neytendastofu um verðhækkun og "lækkun" veitingahúsa mjög illa unnar (skoða hér  verðkönnun ). Í fyrsta lagi, af þessum þremur veitingahúsum sem "lækkuðu" verðið nýlega, að ég best veit, lækkaði enginn af þeim um 10 % eða meira 1. mars en samt er þeim hrósað fyrir lækkun núna! Bíddu nú við, er þetta réttlátt? Hversu erfitt er að lækka verð á milli mars og ágúst ef þú hefur í raun ekki lækkað að ráði fyrir þann tíma þó vsk. hafi lækkað? Svo vil ég vita, hversu mikil er verðhækkunin á veitingahúsum miðað við verðhækkun frá birgja? Er verðhækkunin meiri eða minni en verðhækkun frá heildsala?  Kannski gerðu Einar Ben, Lækjabrekka og Friðrik V vitleysu með því að lækka verðið almennilega í upphafi þegar engin tók eftir því, það er greinilegt að skynsamlegast hefur verið að halda verðinu háu og lækka smávegis til að ganga í augun á neytendastofu og þar af leiðandi líta vel út og fá góða auglýsingu fyrir vikið.  Ég bið ekki um mikið en ég bið neytendastofu að sýna aðeins meiri fagmennsku varðandi verðkannanir í framtíðinni. 

Er reykingabann á veitingahúsum að ganga upp?

Núna þeger farið er að kólna í veðri, reynir all svakalega á reykingabannið.  Eftir kl:24:00 á föstudögum og laugardögum þegar fólk er búið að fá sér nokkur glös, hefur verið ansi erfitt að fá það út að reykja, sérstaklega í rigningu. Það er allt reynt, t.d. að fela sígarettuna undir borði eða farið í klósettið og reykt.  Ef þú labbar niður í bæ um helgar, sést nánast engin úti að reykja þó svo að skemmtistaðirnir séu stút fullir, er það ekki skrýtið?  Ég hætti að reykja fyrir löngu síðan, nema hvað ég fæ mér vindil öðru hvoru eftir góða máltíð, en ég er tilbúin að fórna því fyrir ferskt loft í vinnunni fyrir mig og mitt starfsfólk. Ég er ekki að saka veitingastaði eða skemmtistaði um að svindla á lögunum, en ég verð að spyrja, er reykingabannið að verða eins og gemsa bannið (bannað að keyra og tala í gemsa án handfrjáls búnaðar), sem sagt lög sem allir vita um en margir hunsa?  

Færeysk matarmenning

Jæja þá er ég nýkomin heim eftir helgarferð til Vestmannaeyja og svo beint í tveggja daga ferð til Færeyja.  Ég verð að segja að Þórshöfn í Færeyjum minnti mig svolítið á Akureyri nema hvað það var talað annað tungumál! Hótel Hafnia leit nákvæmlega eins út og hótel Kea í kringum 1985. Meira að segja var ferðin frá flugvellinum til Þórshafnar eins og að keyra í gegnum hálendið! Farið var á tvö veitingahús, Toskana og Gourmet.  Þó Toskana nafnið gefi til kynna að þetta er ítalskur staður þá var ítalskur matur í minnihluta. En það verður að segjast eins og er að maturinn á Toskana var frábær, forrétturinn var bragðmiklar kóngarækjur og aðalrétturinn var piparsteik eins og hún gerist best.  Þjónustan var ekki mjög fagleg en stelpan var svo kurteis, einlæg og dugleg að ófagmennskan var fyrirgefin um leið.  Okkur var sagt að Gourmet væri besti staðurinn í bænum.  Þó maturinn væri ágætur (smakkað var 5 rétta seðill) verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum, umhverfið, maturinn og þjónustan hafði ekkert á Toskana, en samt var það tvisvar sinnum dýrara!!!   

Hlutirnir endurtaka sig í veitingabransanum.

Á einum mánuði er búið að selja flest veitingahús og skemmtistaði í miðbænum.  Fyrirtækið 101 heild sem átti Viktor, Sólon, Silfur, Thorvaldssen, Sjávarkjallarann og Tapas barinn fyrir fjórum mánuðum síðan er ekki einu sinni til í dag.  Logi og Niels sem áttu Olíver, 22, Q-Bar og veislusal ásamt öðrum aðilum seldu allt á einu bretti fyrir tæplega mánuði síðan.  Núna eru nýjir "kóngar" að reka helstu staðina. Ekki er langt síðan Þórarinn og Þórður voru helstu mennirnir og á undan þeim var Herluf Clausen og Valur Magg, og ekki er langt siðan Óli Laufdal var alls ráðandi með Broadway, Hollywood og Hótel Ísland! Skondið að sjá að á fimm til sjö ára fresti verður alltaf "bylting" í veitinga og skemmtihúsa bransanum og þá spretta nýjir kóngar upp til að taka við af þeim gömlu.    


Má ekki hæla veitingahúsum sem lækkuðu verðið?

Ég var að lesa á freisting.is að Neytendastofan ætlar ekki að birta nöfn þeirra veitingahúsa sem lækkuðu ekki verðið, Smellið hér til að horfa á frétt Stöðvar 2 um málið. Ég spyr er ekki hægt að birta frekar nöfn þeirra veitingahúsa sem lækkuðu verðið? Þeir eru mun færri og á meðan allir eru að skammast í stöðum sem gerðu ekkert, er engin að hrósa þeim sem gerðu eitthvað í málinu! Hvernig væri að breyta út af venjunni og hrósa þeim fáu sem gerðu hið rétta, úr því að Neytendastofan ætlar ekki að birta nöfnin. 

Menningar nótt og ýmislegt annað.

Þá er menningarnótt liðin og í hún er í raun síðasti merkilegi atburður sumarsins að mínu mati. Ég hef alltaf verið að vinna niðri í miðbæ síðan menningarnótt var fyrst haldin, og undanfarin ár hefur verið vitlaust að gera.  Árið í ár var engin undantekning, stútfullt á Einari Ben og mikil gleði, en mun meira var af útlendingum og minna af eldri íslendingum (40 ára og eldri) en hefur verið í gegnum árin.  Gaman var að fylgjast með gæslunni sem var mjög öflug, alltaf 10 til 15 manna hópar sem er mjög gott, og sjaldan hef ég verið eins öruggur að fara heim úr vinnunni kl:03 á laugardagsnótt og þá.

Ég er að búa til nýjan dálk á smakkarinn.is, þar sem fjallað verður um hágæða sterkt vín en ég á erfitt með að finna eitthvert flott nafn fyrir dálkinn.  Ef einhver lumar á góðri hugmynd að nafni þá endilega látið mig vita.

Ég er að fara í sjö daga vinnutörn, svo það á ekki eftir að heyrast mikið í mér á næstunni.


Argentína Steikhús ennþá glæsilegt!

Ég fór á Argentínu á miðvikudaginn í tilefni 15 ára brúðkaupsafmælis míns og betri helmingsins, og satt að segja er þetta að mínu mati ennþá með þeim bestu ef ekki besta veitingahús landsins (Einar Ben ekki talið með:)). Á meðan svo mörg önnur hágæða veitingahús hafa lent í einhverri lægð einhvern tíma hefur Argentína alltaf verið stöðugt.  Meira að segja þó Óskar og Ingvar sé báðir farnir fyrir nokkru síðan virðist það ekki skipta máli, og mat og vínseðillinn sýndi að þar er fólk vel með á nótunum og fylgist vel með hvað er að gerast í heiminum. það eru fáir sem hafa sýnt svona frábæra þjónustu og afbragðs góðan mat í nær 20 ár! Til starfsfólks Argentínu, takk fyrir mig!!

 


Sumarfríið er búið!

Jæja þá er sumarfríið búið og vinnan byrjar aftur á morgun (er að vinna næstu 3 helgar). Ég smakkaði mörg góð vín í fríinu en ekkert sem verður vín mánaðarins, ekki vegna þess þau eru ekki nógu góð heldur vegna þess að þau fást ekki í Á.T.V.R.

Vínklúbburinn fer aftur í gang í september en verður á Einar Ben.  Ástæðan fyrir því er vegna þess að þá get ég haldið fundi í vinnunni og þarf ekki að nota eitt af mínum fáu frí kvöldum frá fjölskyldunni. 

Ég sá á Decanter.com að einn af mínum uppáhalds vínframleiðandi Grant Burge er með vín vikunnar. Ég sagði að ég hef góðan smekk:) kíktu á þetta hérna fyrir neðan!

Wines of the week

Red wine of the week

RED WINE of the week

Grant Burge, Hillcot Merlot, Barossa Valley 2004 Little needs to be said about Barossan stalwart Grant Burge, and this Merlot of great finesse and fantastic value merely augments his reputation. There's a touch of tobacco leaf on the vibrant nose while the palate bursts with ripe fruit and just a hint of bottle development. A long finish completes the picture. Drink up to 2010. £9.99 everywine.co.uk,


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband